Endurskoðun aðalskipulags

Sveitarstjórn hefur ákveðið að endurskoða gildandi aðalskipulag enda er orðið nokkuð langt um liðið frá því að gildandi aðalskipulag var staðfest.

Gögn gildandi aðalskipulags má sjá hér á vef Skipulagsstofnunar.

Samráð við íbúa og hagsmunaaðila er lykilatriði við endurskoðunina og því mikilvægt að þeir komi sjónarmiðum sínum á framfæri, sjá upplýsingar um ferli endurskoðunarinnar og tilkynningar sem munu berast meðan á endurskoðuninni stendur.

Í byggingar- og skipulagsnefnd eiga sæti: Lára Gunndís Magnúsdóttir, Þorkell Gíslason og Ragnhildur Jónsdóttir. Til vara eru Kristín Halla Bergsdóttir og Róbert Jónsson.

Skipulagsfulltrúi er Rúnar Guðmundsson.

Alta ehf aðstoðar við endurskoðunina.

Spurt og svarað

Aðalskipulagið er lykilstjórntæki fyrir sveitarfélagið og hefur mikil áhrif á þróun byggðar og samfélags. Það er því mikilvægt að allir íbúar kynni sér það vel og taki þátt í mótun þess.

Sjá hér algengar spurningar og svör við þeim.

Kynning skipulags- og matslýsingar

Fyrsta skref í endurskoðun aðalskipulagsins var stigið með kynningu skipulags- og matslýsingar en þar koma fram ýmsar forsendur endurskoðunarinnar og útskýrt hvernig staðið verður að umhverfismati.

Ferli endurskoðunar

Endurskoðun aðalskipulags skiptist í meginatriðum í þrjú skref:

Kynning skipulags- og matslýsingar

Í skipulags- og matslýsingu koma fram ýmsar upplýsingar sem varða tilefni endurskoðunarinnar og yfirlit yfir almennar forsendur sem varða skipulagsgerðina, einkum þær sem hafa breyst frá því núgildandi skipulag var staðfest. Óskað verður eftir ábendingum um það sem athuga þarf við endurskoðunina. Þessi kynning stendur nú yfir, sjá hér fyrir ofan.

Kynning tillögu á vinnslustigi

Þetta er óformleg kynning þar sem tillaga er lögð fram á því stigi að hún er næstum fullmótuð en ennþá opin fyrir ábendingum um það sem betur má fara. Öllum er heimilt að senda inn ábendingar og þær verða hafðar til hliðsjónar við fullvinnslu tillögunnar en þeim er ekki svarað formlega.

Auglýsing tillögu

Þetta er lokaskrefið og síðasta tækifæri til að hafa áhrif á innihald tillögunnar. Skipulagsstofnun yfirfer tillöguna á undan og gefur heimild til auglýsingar. Gefinn er 6 vikna frestur til að skila athugasemdum og þeim er svarað formlega.

Eftir auglýsingu er tillögunni breytt ef tilefni er til vegna fram kominna athugasemda og síðan samþykkt í sveitarstjórn og staðfest af Skipulagsstofnun.